Spá enn meiri samdrætti í farþegaflugi

Alþjóðasamtök flugfélaga hafa dregið úr væntingum sínum um bata í greininni.

Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Flugumferðin í ágúst var rétt um fjórðungur af því sem hún var á sama tíma í fyrra. Þetta var mun meiri samdráttur en sérfræðingar IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, höfðu gert ráð fyrir. Af þeim sökum spá þeir nú 66 prósent samdrætti í flugi í ár en fyrri spá gerði ráð fyrir 63 prósent niðursveiflu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Vegna þess aukinnar útbreiðslu kórónuveirunnar og hertra aðgerða við landamæri þá eru bókanir á ferðalögum fram í tímann af skornum skammti. Af þeim sökum reiknar IATA með því að fjöldi flugfarþega í desember næstkomandi fari niður um 68 prósent. Áður hafði verið reiknað með rétt rúmlega helmings samdrætti í jólamánuðinum.