Staða flugfélags Icelandair Group á Grænhöfðaeyjum snúin

Forsætisráðherra Grænhöfðaeyja segir viðræður um stöðu Cabo Verde Airlines snúnar. Undir það tekur forstjóri félagsins.

Mynd: Cabo Verde Airlines

Boeing 757 þotur Cabo Verde Airlines hafa nánast staðið óhreyfðar síðustu sex mánuði enda hefur nærri allt flug, til og frá Grænhöfðaeyjum, legið niðri síðan Covid-19 faraldurinn hófst. Stuttu áður var reyndar hafin vinna við fjárhagslega endurskipulagningu flugfélagsins sem er að meirihluta í eigu Íslendinga.

Loftleiðir, dótturfélag Icelandair Group, er þannig næst stærsti hluthafinn með 36 prósent hlut en stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum eiga 39 prósent. Staða flugfélagsins í dag er að mati forsætisráðherra eyjaklasans álíka erfið og annarra flugfélaga í heiminum. Hann fullyrðir þó, í viðtali við fréttasíðuna Lusa, að flugfélagið muni halda áfram rekstri en viðurkennir að viðræður um opinberan stuðning við félagið séu snúnar.

Undir það tekur Erlendur Svavarsson, fortjóri Cabo Verde Airlines, í svari til Túrista. Hann segir viðræður hluthafa ennþá standa yfir og ekkert enn fast í hendi.

Erlendur bendir á að Grænhöfðaeyjar sé ennþá að mestu lokaðar og aðeins leyfð fjögur flug í viku til Lissabon. Þær ferðir eru á vegum portúgalska flugfélagsins TAP og eru farþegar fáir í hverri ferð að sögn Erlends.

„Nýgengi Covid smita er enn hátt á Cabo Verde og því mikil óvissa um hvenær unnt verður að opna fyrir ferðamannastrauminn aftur. Á meðan þessi staða er uppi mun flugfélagið bíða átekta og halda áfram að vinna með hagaðilum að næstu skrefum til þess að unnt verði að hefja flug að nýju, þegar ytri aðstæður leyfa,“ segir Erlendur.

Þess má geta að Icelandair Group færði niður eignarhlut sinn í Cabo Verde Airlines að fullu á síðasta ári. Íslenskir fjárfestar, þar á meðal Björgólfur Jóhannsson fyrrum forstjóri samsteypunnar, eiga fimmtán prósent hlut flugfélaginu og starfsmenn þess fara með tíund.

Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengurNánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.