Takmarkanir á nýtingu lánalínu

Meirihluti þingmanna var samþykkur því að veita Icelandair Group ríkisábyrgð á fimmtán milljarða lánalínu. Sú breytinga var þó gerð á frumvarpi fjármálaráðherra að fjármargnið má eingöngu nota til að styðja við flugrekstur samstæðunnar.

Mynd: Icelandair

Ef komandi hlutafjárútboð Icelandair Group gengur upp þá fær fyrirtækið ríkisábyrgð á fimmtán milljarða króna lánalínu frá ríkinu. Meirihluti þingmanna greiddi í gær atkvæði með ábyrgðinni. Hún verður þó takmörkuð við flugrekstur Icelandair Group samstæðunnar.

Það skilyrði var ekki í upphaflegu frumvarpi fjármálaráðherra og var það gagnrýnt í nokkrum af þeim umsögnum sem bárust fjárlaganefnd vegna ábyrgðarinnar.

Þessi takmörkun er skilgreind í áliti meirihluta fjárlaganefndar og þar segir að óheimilt verði að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri eða ráðstafa því til dótturfélaga sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi til og frá landinu.

Þar með er ætti að vera útilokað að Icelandair Group geti nýtt lánalínuna til að styðja við rekstur flugfélagsins Capo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum. En Icelandair Group á, í gegnum dótturfélagið Loftleiðir, stóran hlut í því flugélagi.

Aftur á móti er óljóst hvort þetta komi veg fyrir að ferðaskrifstofur Icelandair samstæðunnar gæti fengið betri kjör hjá flugfélaginu Icelandair en aðrar ferðaskrifstofur fá.