„Það er engin ástæða til að halda að ástandið batni á næstunni“

Bandaríska lágfargjaldaflugfélagið Southwest hefur líkt og önnur félög orðið fyrir miklu höggi vegna Covid-19. Forstjórinn telur ekki að betri tíð bíði handan við hornið.

Bandarísk stjórnvöld hafa síðustu mánuði staðið undir stórum hluta af launakostnaði Southwest og fleiri flugfélaga. Nú er óljóst hvort framhald verði þar á. Mynd: Southwest Airlines

Allt frá því að Covid-19 setti flugsamgöngur úr skorðum þá hefur bandaríska ríkið staðið undir stórum hluta af launakostnaði flugfélaganna þar í landi. Í staðinn mega félögin ekki segja upp fólki og eins gerði stjórn Donald J. Trump kröfu um að að flugleiðir yrðu ekki lagðar niður.

Að öllu óbreyttu lýkur þessari opinberu aðstoð nú um mánaðamótin og þá stefnir í gríðarlegar uppsagnir í fluggeiranum vestanhafs. Af þeim sökum reyna forstjórar bandarískra flugfélaga þessa dagana að sannfæra ráðamenn þjóðarinnar um að framlengja stuðninginn.

Þeirra meðal er Gary Kelly, forstjóri Southwest flugfélagsins, sem er það fjórða stærsta í Bandaríkjunum. Í viðtali við CNBC í vikunni fór hann yfir stöðuna og sagði umsvif Southwest hafa dregist saman um sjötíu prósent og á því hefðu orðið litlar breytingar síðustu vikur.

„Það er engin ástæða til að halda að ástandið batni á næstunni,“ bætti Kelly við og vísaði til þess að ennþá ætti eftir að ná tökum á Covid-19 heimsfaraldrinum.

Segja má að staða Southwest sé þó á margan hátt betri en margra annarra flugfélaga. Umsvif þessa lágfargjaldaflugfélags takmarkast nefnilega að mestu við innanlandsflug. Þess háttar útgerð hefur dregist mun minna saman en flug milli heimsálfa.

Á þetta er til að mynda bent í nýrri greiningu fjárfestingabankans Morgan Stanley. Sérfræðingar bankans mæla þar með kaupum í bréfum flugfélaga sem sinna flugi innan Ameríku, þar á meðal Southwest. En síður í flugfélögum sem byggja afkomu sína að miklu leyti á alþjóðaflugi.