Þjálfun í MAX-flugherminum í Hafnarfirði gæti komist í gang í nóvember

Evrópsk flugmálayfirvöld munu mögulega samþykkja breytingar á Boeing MAX þotunum fyrir árslok.

Hjá TRU Flight Training Iceland, dótturfélagi Icelandair Group, er ekki aðeins hermir fyrir Boeing MAX þotur heldur líka Boeing 757 og 767. MYND: TRU FLIGHT TRAINING ICELAND

„Við eigum alveg eins von á því að þjálfun hefjist hjá okkur að einhverju marki í nóvember. Bæði flugmenn Icelandair og erlendra flugfélaga. Til að byrja með er um nýþjálfun að ræða og þegar búið verður að gefa út skírteini um flughæfni flugvélanna þá má búast við sérþjálfun fyrir hverja áhöfn í samræmi við útgefnar þjálfunarkröfur,“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri TRU Flight Training Iceland, sem rekur flugherma Icelandair í Hafnarfirði.

Þar á meðal er einn þeirra fáu Boeing MAX-herma sem til eru í Evrópu. En gerð verður krafa um allir þeir flugmenn sem fljúga eiga MAX þotum fari í sérstaka þjálfun í flughermi áður en þeir taka á loft á nýjan leik.

Og það gæti styst í að þessar umtöluðu þotur verði á ný nýttar í að ferja fólk milli landa. Yfirmaður Evrópsku flugöryggisstofnunarinnar gaf nefnilega út í vikulok að nýlegar prófanir á þotunum hefðu gengið vel. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á vélunum, eftir að þær voru kyrrsettar í mars í fyrra, gætu því fengið grænt ljós yfirvalda fyrir áramót.

Þær betrumbætur snúa aðallega að sérstökum stýribúnaði vélanna en tvö mannskæð flugslys eru rakin hönnunargalla í honum.

Guðmundur Örn segir að búið sé að uppfæra hugbúnaðinn í MAX-herminum í Hafnarfirði en ekki liggi fyrir hvort sú útgáfa verði sú endanlega. Það komi fyrst í ljós þegar flugvélarnar fá samþykki flugmálayfirvalda. Það þýðir að þeir flugmenn sem hafa fengið þjálfun í flugherminum að undanförnu þurfa að fara í herminn á ný eftir að endanlegt samþykki fyrir hugbúnaðinum er fengið. Jafnvel þó engar breytingar verði gerðar á búnaðinum.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.