Þoturnar þéttsetnari hjá Icelandair en norrænu keppinautunum

Á meðan Finnair og SAS fljúga hálftómum þotum þá jafnast sætanýtingin hjá Icelandair við það sem stærstu lággjaldaflugfélög Evrópu eru með.

Að jafnaði voru um sjö af hverjum sætum í þotum Icelandair skipuð farþegum í júlí og ágúst. Svo há gæti hún ekki verið ef félagið fylgdi fordæmi flugfélaga eins og Delta og JetBlue sem selja ekki farþegum miðjusæti nú á tímum Covid-19. MYND: ICELANDAIR

Í bæði júlí og ágúst hefur sætanýtingin hjá Icelandair verið um sjötíu prósent. Á sama tíma hefur hún verið rétt rúmlega fjörutíu prósent hjá Finnair en tæpur helmingur hjá SAS.

Nýtingin hjá Icelandir er þar með álíka og hún var hjá Ryanair og Wizz Air í ágúst. Í eðlilegu árferði væru þessi tvö stóru lággjaldaflugfélög með mun hærri nýtingu en Icelandair.

Aftur á móti dróst framboðið hjá Icelandair meira saman í ágúst en hjá Finnair og SAS eða um 89 prósent. Niðurskurðurinn hjá Finnair var litlu minni (84,1) en um sjötíu prósent hjá SAS eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Hjá því síðastnefnda vegur innanlandsflug þungt á meðan Icelandair er aðeins í millilandaflugi.

Stjórnendur Norwegian hafa í yfirstandandi heimsfaraldri ekki birt mánaðarlega farþegatölur. Á því varð þó breyting í síðustu viku þegar félagið gaf út uppgjör fyrir ágúst. Þar sést að niðurskurður í framboði var ennþá meiri þar en hjá Icelandair en sætanýtingin þó lægri.

Icelandair gefur ekkert uppi um þróun fargjalda í sínum mánaðarlegu uppgjörum. Það gera hins vegar SAS og Norwegian og hjá því fyrrnefnda hækkuðu tekjur á hvern floginn kílómetra um fimmtung í ágúst. Hjá Norwegian nam hækkunin 84 prósentum.