Þurfa 444 milljarða króna í nýtt hlutafé

Stærsti hluthafinn í IAG samsteypunni hefur þegar skuldbundið sig til að kaupa fjórðung af því nýja hlutafé sem nú verður boðið til sölu.

british airways
British Airways tilheyrir IAG samsteypunni. Mynd: British Airways

Þrjú af þeim flugfélögum sem heyra undir IAG Group bjóða upp á reglulegar ferðir til Íslands, þ.e. Vueling, British Airways og Iberia Express. Innan samsteypunnar er einnig hið írska AerLingus sem svipar á margan hátt til Icelandair, bæði gera út á tengiflug til Norður-Ameríku og skilgreina sig mitt á milli hefðbundinna flugfélaga og lágfargjaldafélaga.

Fyrr í sumar gáfu stjórnendur IAG út að fyrirtækið þyrfti á nýju hlutafé að halda vegna kórónuveirukrísunnar því aukið lánsfé væri ekki fýsilegur kostur. Stærsti eigandinn, Qatar Airways, staðfesti um leið að félagið myndi kaupa fjórðung af útboðinu og þar með halda sínum hlut óbreyttum í IAG.

Sú skuldbinding mun kosta eigendur Qatar Airways umtalsvert því ætlunin er að safna rúmlega 2,7 milljörðum evra í útboðinu. Það jafngildir 444 milljörðum íslenskra króna.

Í tilkynningu sem IAG gaf út í gær sagði að gengi bréfanna yrði 36 prósent lægra en sölugengið var í lok viðskiptadags á miðvikudag.

Sérfræðingar IAG gera ráð fyrir að samdrátturinn í framboði samsteypunnar verði 78 prósent á yfirstandandi fjórðungi og 60 prósent á þeim næsta. Árið 2021 gera þeir þó ráð fyrir töluverðri bætingu og sætisframboðið verði þá 27 prósent undir því sem var árið 2019.

Til samanburðar þá hljóðar áætlun Icelandair Group uppá 70 prósent samdrátt á næsta ári í sætiskílómetrum talið.