Vantaði þrjá af hverjum fjórum ferðamönnum

Erlendu ferðafólki fækkaði aðeins minna hér á landi ágúst en mánuðinn á undan.

Það voru tæplega 64 þúsund útlendingar sem flugu frá Íslandi í ágúst. Það er 74,7 prósent samdráttur frá sama tíma í fyrra. Aftur á móti var þetta smá framför frá júlí því þá nam samdrátturinn áttatíu prósentum samkvæmt talningum Ferðamálastofu.

Það voru Þjóðverjar sem voru fjölmennastir í hópi ferðamanna í ágúst eða tæplega ellefu þúsund. Það jafngildir helmings minnkun milli ára. Í öðru sæti komu Pólverjar en þá verður að hafa í huga að útlendingar búsettir á Íslandi eru taldir með.

Ítalir voru svo þriðji fjölmennasti hópurinn en í því samhengi má rifja upp að Wizz Air bætti við ferðum frá Mílanó til Íslands í sumarlok. Aftur á móti hætti Icelandair alfarið við flug frá ítölsku borginni í sumar.