Wizz Air með fleiri ferðir en Icelandair

Fyrstu viku þessa mánaðar þá aflýsti Icelandair um sjö af hverjum tíu brottförum. Þar með er félagið ekki það umsvifamesta í flugi til og frá landinu þessa dagana.

Mynd: Wizz Air

Eftir að krafa var gerð um að allir fari í sóttkví við komuna til landsins þá hefur umferðin um Keflavíkurflugvöll dregist saman og fjöldi ferða fallið niður. Oft með litlum fyrirvara.

Þannig voru 127 brottfarir á dagskrá flugvallarins fyrstu sjö dagana í september og af þeim var 52 aflýst. Það jafngildir því að aðeins 59 prósent flugáætlunarinnar stóðst.

Bróðurparturinn af þessum breytingum skrifast á Icelandair sem aflýsti 49 af 68 brottförum fyrstu sjö dagana í september samkvæmt talningu Túrista. Þotur íslenska félagsins flugu þar með aðeins nítján ferðir héðan til útlanda þessa fyrstu viku mánaðarins.

Til samanburðar tóku þotur Wizz Air tuttugu og sex sinnum á loft frá Keflavíkurflugvelli þessa sömu daga. Þar með er ungverska lággjaldaflugfélagið nokkru umsvifameira í millilandaflugi héðan en Icelandair þessa dagana.

Icelandair heldur uppteknum hætti í dag því nú hefur sjö af átta brottförum dagsins verið aflýst. Aftur á móti munu þotur Wizz Air fljúga héðan í dag til Mílanó, Vínarborgar, Kraká og Gdansk