Yfir sjö þúsund nýir hluthafar

Mikil umframeftirspurn var í hlutafjárútboði Icelandair Group sem lauk í gær. Stjórn félagsins nýtti sér því heimild til stækkunar útboðsins en hafnaði tilboði upp á sjö milljarða króna.

„Við erum auðmjúk og þakklát fyrir það mikla traust sem Icelandair Group var sýnt í hlutafjárútboðinu sem er lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins," segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Það var lagt upp með að selja að lágmarki hlutafé fyrir tuttugu milljarða í hlutafjárútboði Icelandair sem lauk seinnipartinn í gær. Stjórn félagsins hafði þó heimild til að hækka upphæðina upp í tuttugu og þrjá milljarða ef þátttaka yrði nægjanleg.

Og það var hún því alls bárust yfir níu þúsund áskriftir samtals að fjárhæð 37,3 milljarðar króna. Umframeftirspurn eftir hlutum í útboðinu nam þar með um 85 prósentum og var útboðsgengið 1 króna á hlut.

Stjórn Icelandair Group ákvað að nýta sér heimild til að stækka útboðið upp í 23 milljarða en samþykkti tilboð fyrir 30,3 milljarða sem þýðir að ákveðinn hluti tilboða skerðist. Um sjö þúsund nýir hluthafar bætast þar með við hluthafahóp Icelandair samsteypunnar.

Stjórn Icelandair hafnaði aftur á móti tilboði upp á sjö milljarða. Ekki kemur fram í tilkynningu afhverju það var gert. En í því samhengi má rifja upp að Michelle Roosevelt Edwards, forsprakki endurreisnar WOW air, lagði fram tilboð í Icelandair Group fyrir sjö milljarða króna í gær.

„Við erum auðmjúk og þakklát fyrir það mikla traust sem Icelandair Group var sýnt í hlutafjárútboðinu sem er lokahnykkurinn í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Með breiðari hluthafahópi, sterkum efnahagsreikningi og sveigjanlegu leiðakerfi munum við verða tilbúin að bregðast hratt við þegar eftirspurn tekur við sér á ný. Við ætlum okkur, hér eftir sem hingað til, að tryggja öflugar flugsamgöngur til og frá Íslandi og yfir Atlantshafið með tilheyrandi ávinningi fyrir íslenskt efnahagslíf og lífsgæði hér á landi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Hlutafé Icelandair er í dag 5,4 milljarðar hluta en verður um 28,4 milljarðar hluta eftir útboðið.

Kæri lesendi, á næstu dögum verður Túrista læst að hluta. Þar með verður þorri greinanna sem hér birtast aðeins aðgengilegur áskrifendum. Þetta er sú leið sem fjöldi netmiðla út í heimi hefur farið og sérstaklega þeir sérhæfðu eins og Túristi sannarlega er. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur. Nánari upplýsingar um fyrirkomulagið verða birtar innan skamms.