1.006 MAX þotur afpantaðar

Auk þessara fjögurra MAX þota sem Icelandair hætti við að kaupa þá hefur Boeing þurft að sjá á eftir þúsund öðrum pöntunum.

Boeing MAX þotur Icelandair. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Nú eru nítján mánuðir liðnir frá því að Boeing MAX þotur voru kyrrsettar um heim allan og á þessum tíma hefur bandaríski flugvélaframleiðandinn ekki getað afhent eina einustu flugvél. Þar með hafa flugfélög getað rift kaupum á þeim þotum sem dregist hefur að afhenda í meira en eitt ár.

Þetta riftunarákvæði hafa margir kaupendur nýtt sér samkvæmt frétt Seattle Times því samtals hafa 570 MAX þotur verið teknar af pöntunarlista Boeing í ár vegna þess að kaupendur hafa misst þolinmæðina eða þeir standast ekki lengur greiðslumat hjá fjármögnunarfyrirtækjum. Svo eru einhverjir einfaldlega farnir á hausinn.

Til viðbótar við allar þessar 570 þotur hafa flugfélög náð samkomulagi við Boeing um að falla frá kaupum á 436 þotum. Líklega eru þessar fjórar sem Icelandair hætti við að kaupa þar meðtaldar. Í heildina eru þetta þá 1.006 MAX þotur sem hafa dottið af pantanalista Boeing í ár.