175 fyrirtæki taka þátt í Vestnorden ferðkaupstefnunni

Frá Seyðisfirði. MYND: ÍSLANDSSTOFA

Vestnorden ferðakaupstefnan er haldin í dag en hún fer að þessu sinni fer hún fram á vefnum en ekki á Reykjanesi eins og upphaflega stóð til. Í tilkynningu frá Íslandsstofu kemur fram að mikill áhugi sé á kaupstefnunni og 175 fyrirtæki eru skráð til leiks.

„Þó svo að fólk geti ekki hist í eigin persónu að þessu sinni er lögð mikil áhersla á tengslamyndun og fundi milli mögulegra viðskiptavina þar sem fyrirtæki geta viðhaldið þeim góðu samböndum sem hafa myndast í gegnum Vestnorden síðustu ár og áratugi,“ segir í tilkynningu.

Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA) standa að Vestnorden en þau eru samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Ferðakaupstefnan hefur verið haldin síðan 1986 og
hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir ferðaþjónustu landanna þriggja.

Vestnorden er mikilvægur vettvangur fyrir íslensk, færeysk og grænlensk ferðaþjónustufyrirtæki til að rækta viðskiptasambönd og stofna til nýrra að sögn Sigríðar Daggar Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Á meðan Covid-19 varir er mikilvægt að fyrirtæki hugi vel að
tengslanetinu. Greiningaraðilar búast við að ferðaþjónusta taki hratt við sér á næsta ári en það verður sterk samkeppni milli áfangastaða og það er ekki sjálfgefið að ferðamenn velji Ísland. Öflug viðskiptatengsl munu skipta miklu máli og flýta fyrir bata íslenskrar ferðaþjónustu.”

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við NATA.