90 prósent færri farþegar með Norwegian

Stór hluti af flugflota Norwegian hefur verið á jörðu niðri frá því að kórónuveirukreppan hófst. Framboð félagsins hefur því dregist verulega saman.

Umsvif Norwegian, líkt og fleiri flugfélaga, eru lítil þessa dagana. Í nýliðnum september flugu aðeins 319 þúsund farþegar með félaginu en fjöldinn nam 3,3 milljónum á sama tíma í fyrra. Samdrátturinn nemur níutíu prósentum.

Framboðið dróst ennþá meira saman eða um 93 prósent. Þar munar til að mynda um útgerð Norwegian á Keflavíkurflugvelli. Félagið hefur nefnilega verið stórtækt í Spánarflugi þaðan og bauð, þegar mest lét, upp á áætlunarflug milli Íslands og fimm spænskra borga.

Einu mælikvarðarnir sem þokast upp á við hjá Norwegian í núverandi ástandi eru tekjur á hvern floginn kílómetra og meðalfargjöldin. Síðarnefndi þátturinn tvöfaldaðist í september á meðan einingatekjurnar fór upp um sautján prósent.

Skýringin á því liggur væntanlega í því að meðallengd flugferða hefur dregist verulega saman hjá Norwegian. Félagið hefur t.d. gert hlé á öllum ferðum milli Evrópu og Norður-Ameríku.