99 ítalskar ferðaskrifstofur til fundar við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki

Íslandsstofa stendur á næstunni fyrir nokkrum rafrænum ráðstefnum með erlendum ferðaskipuleggjendum.

Ítalir fjölmenna helst til Íslands yfir sumarmánuðina. Ítölskum ferðamönnum fjölgaði þó verulega hér þegar Norwegian bauð upp á beint flug frá Róm allt árið um kring. Nú eru aftur komnar á flugsamgöngur við Ítalíu yfir vetrarmánuðina. Mynd: Curren Podlesny

Þó ferðalög milli landa liggi að miklu leyti niðri núna þá er ferðaþjónusta heimsins engu að síður að undirbúa sig fyrir betri tíð. Hluti af því eru fundir með ferðaskipuleggjendum í öðrum löndum en þó með rafrænum hætti.

Í næsta mánuði, nánar tiltekið 18. og 19. nóvember, taka íslensk ferðþjónustufyrirtæki til að mynda þátt í rafrænni vinnustofu með ítölskum ferðaheildsölum.

Samtals hafa 99 ítölsk fyrirtæki skráð sig til leiks og að minnsta kosti þrettán íslensk samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu sem sér um ráðstefnuna. Norsk, finnsk og dönsk ferðaþjónustufyrirtæki ætla líka að ná tali af Ítölunum.

Áhuginn er því mikill en þess má geta að nú fljúga þotur Wizz Air allt árið um kring til Íslands frá Mílanó og Icelandair stefnir líka á áætlunarferðir frá ítölsku borginni næsta sumar.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, segir það ánægjulegt hversu mörg íslensk fyrirtæki hafi nú þegar skráð sig. Hún segir fleiri rafræna viðburði vera á dagskrá og þar með gefst fyrirtækjum tækifæri til að viðhalda tengslum sínum við viðskiptavini þrátt fyrir ástandið.

Í þessari viku fer til að mynda fram rafræn útgáfa af ITB Asia ferðakaupstefnunni og þar verða nokkur íslensk fyrirtæki með. Síðan er það Digital Travel Market í Þýskalandi þann 5. nóvember og Virtual World Travel Market sem fer fram dagana 9.-11. nóvember. Einnig eru í bígerð aðgerðir á Spánar- og Bandaríkjamarkaði að sögn Sigríðar. Sjá nánar á vef Íslandsstofu.

Þessi grein eru öllum opin en stór hluti af því efni sem nú birtist á Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Smelltu hér til að fá áskrift.