Air Iceland Connect flutti fleiri farþega en Icelandair í september

Gríðarlegur samdráttur í starfsemi Icelandair.

Að jafnaði var sætanýtingin hjá Icelandair í september 45,5 prósent. MYND: ICELANDAIR

Það voru aðeins 11.869 farþegar sem nýttu sér flugferðir Icelandair í nýliðnum mánuði. Samdrátturinn frá sama tíma í fyrra nemur 97 prósentum samkvæmt farþegatölum félagsins. Aftur á móti fækkaði farþegum Air Iceland Connect mun minna eða um fimmtíu og tvö prósent. Í heildina voru þeir 12.757 í september, 888 fleiri en hjá Icelandair.

Framboðið hjá Air Iceland Connect í september dróst hlutfallslega meira saman en farþegafjöldinn eða um 57 prósent. Framboðið hjá Icelandair fór aftur á móti niður um 96 prósent.

Sætanýtingin þar á bæ var rétt 45,5 prósent en 66,1 prósent hjá Air Iceland Connect.

„Farþegafjöldi Icelandair í septembermánuði endurspeglar þær takmarkanir sem í gildi eru á landamærum hér á landi og áhrif þeirra á eftirspurn. Við höfum undirbúið félagið undir slíkar aðstæður og unnið markvisst að því á liðnum mánuðum að viðhalda þeim sveigjanleika sem til þarf til að bregðast hratt við breytingum á okkar mörkuðum á hverjum tíma. Vel heppnað hlutafjárútboð í september endurspeglar þá trú sem fjárfestar hafa á rekstri og framtíðarsýn Icelandair til lengri tíma. Við erum vel í stakk búin til að takast á við þær aðstæður sem nú ríkja en jafnframt tilbúin að bregðast hratt við og auka flugið um leið og ferðatakmarkanir verða rýmkaðar og eftirspurn glæðist á ný,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.