Átta sinnum meiri skaði en efnahagshrunið olli

Fyrstu átta mánuði ársins fækkaði ferðafólki á heimsvísu um sjötíu prósent og niðursveiflan var ennþá meiri yfir hina þýðingarmiklu sumarvertíð.

Ferðafólki hér á landi fækkaði jafn mikið og í Evrópu í heild sinni. Mynd Nicolas J Leclercq / Unsplash

Ferðafólki á heimsvísu fækkaði um 700 milljónir fyrstu átta mánuði ársins vegna heimsfaraldursins sem nú geysar. Gera má ráð fyrir að útflutningstekjur upp á um 730 milljónir dollara hafi þar með glatast. Þetta kemur fram í nýrri úttekt ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna. Þar segir jafnframt að tjónið sé átta sinnum meira en það sem varð í kjölfar efnahagshrunsins í lok árs 2008.

Í heildina fækkaði þeim sem ferðuðust á milli landa á tímabilinu janúar til ágúst um sjötíu prósent. Samdrátturinn í júlí og ágúst var þó ennþá meiri eða um áttatíu prósent. Í Evrópu nemur fækkunin í ár 68 prósentum sem er sami samdráttur og varð í komum erlendra ferðamanna til Íslands á tímabilinu (67,4%) samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Ferðamálaráð Sameinuðu þjóðanna gerir ráð fyrir að ferðalög milli landa taki við sér á ný um mitt næsta ár og þá helst á þriðja fjórðungi.

Þessi frétt er öllum opin er bróðurpartur þeirra greina sem Túristi birtir er nú aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.