Borgirnar sem halda sæti sínu á sumaráætlun Icelandair og líka þær sem detta út

Þrátt fyrir óvissuástandi þá birti Icelandair í dag lista yfir þær borgir sem þotur félagsins munu fljúga til næsta sumar.

Icelandair gerir ráð fyrir New York á ný næsta sumar. Mynd: Hector Arguello Canals

Icelandair gerir ráð fyrir áætlunarflugi til tuttugu og tveggja áfangastaða í Evrópu næsta sumar og tíu í Norður-Ameríku. Á nýliðnu sumri þá datt nærri allt Ameríkuflug upp fyrir og ferðirnar til Evrópu voru mun færri en gert var ráð fyrir vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Næsta sumar bætist einn áfangastaður við leiðakerfi Icelandair og það er spænska eyjan Tenerife. Flogið verður þangað á laugardögum.

Hin nýja sumaráætlun gerir þó ekki ráð fyrir neinum ferðum til Dusseldorf í Þýskalandi og Barcelona á Spáni. Aðrir áfangastaðir flugfélagsins í Evrópu eru á áætluninni.

Í Norður-Ameríku er breytingin meiri því þotur Icelandair munu ekki fljúga til Philadelphia, Portland, Anchorage í Bandaríkjunum né Edmonton í Kanada.

Áfangastaðir Icelandair í Evrópu sumarið 2021:
Amsterdam, Bergen, Berlín, Billund, Brussel, Dublin, Frankfurt, Genf, Glasgow, Hamborg, Helsinki, Kaupmannahöfn, London, Madríd, Manchester, Mílanó, Munchen, Ósló, París, Stokkhólmur, Tenerife og Zurich.

Áfangastaðir Icelandair í Norður-Ameríku næsta sumar verða:
Boston, Chicago, Denver, Minneapolis, New York, Seattle og Washington í Bandaríkjunum. Toronto, Vancouver og Montreal í Kanada.