Eignast 43,6 prósent hlut SAS

Bilið milli danska og sænska ríkisins og svo annarra hluthafa í SAS hefur breikkað eftir hlutafjárútboð vikunnar.

MYND: SAS

Það var töluverð umfram eftirspurn eftir hlutabréfum í Icelandair í síðasta mánuði og líka í útboði Finnair í júlí. Það vantaði aftur á móti þónokkuð upp á þátttökuna í útboði SAS sem lauk á miðvikudag. Því þurftu ríkissjóðir Svía og Dana að kaupa aukalega 9,5 prósent af þeim hlutum sem voru í boði fyrir almenna fjárfesta.

Sá hluti bætist þar með við þau nýju hlutabréf sem þessir tveir stærstu eigendur SAS höfðu áður skuldbundið sig til að kaupa til styðja við flugfélagið á þessum erfiðu tímum.

Vegna þess hve stórtækir ríkissjóðirnir tveir voru í útboðinu þá sitja þeir núna, hvor um sig, á 21,8 prósent hlut í SAS. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SAS í dag.

Samanlagt fara ríkissjóðirnir þá samanlagt með 43,6 prósent hlut í flugfélaginu en áður áttu þeir tæp 29 prósent. Norska ríkið seldi öll hlutabréf sín í SAS sumarið 2018.

SAS býður upp á Íslandsflug frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn allt árið um kring.