Farþegatekjur niður um 90 prósent en auknar tekjur af frakt vega upp á móti

Tekjur félagsins lækkuðu um 81 prósent á síðasta ársfjórðungi.

Farþegatekjur Icelandair lækkuðu um níutíu af hundraði á þriðja fjórðungi ársins en tekjur af fraktflutningum hækkuðu aftur á móti um sextán prósent. Í heildina drógust tekjur félagsins á tímabilinu júlí til september saman um 81 prósent. Þetta er vanalega arðbærasti hluti ársins í rekstri Icelandair.

Að þessu sinni voru ferðalög á milli landa þó mjög takmörkuð yfir sumarmánuðina þó þau hafi reyndar verið töluvert meiri en nú í haust.

„Við gerum ráð fyrir að starfsemi félagsins verði áfram í lágmarki á næstu vikum. Við höfum hins vegar náð að takmarka útflæði fjármagns og styrkt lausafjárstöðu félagsins til þess að geta komist í gegnum tímabil lágmarksframleiðslu allt fram á árið 2022 ef þörf krefur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu. Þar kemur fram að lausafjárstaða Icelandair hafi numið 55 milljörðum króna um síðustu mánaðamót. Þar af var handbært fé og lausafjársjóðir upp á 31,5 milljarð króna.

Eignfærsla tekjuskatts og endurflokkun eldsneytisvarna höfðu þau áhrif að hagnaður félagsins nam 5,2 milljörðum króna á tímabilinu. Fastlega má gera ráð fyrir að forstjóri og fjármálastjóri fyrirtækisins útskýri, á boðuðum fundi með fjárfestum í fyrramálið, hvernig þeim málum er háttað.