Fyrsta árið sem easyJet er rekið með tapi

Horfurnar eru ekki góðar í rekstri easyJet að mati stjórnenda félagsins.

easyjet islenski fani
Frá jómfrúarferð easyJet til Íslands árið 2012. Mynd: easyJet

Það stefnir í að tapið af rekstri easyJet verði 800 milljónir punda á þessu reikningsári en því líkur í lok þessa mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en tapið jafngildir um 144 milljörðum íslenskra króna.

Þetta verður í fyrsta skipti í tuttugu og fimm ára sögu þessa breska lágfargjaldafélags sem reksturinn er ekki réttum megin við núllið. Kórónuveirukreppan hefur nefnilega leikið easyJet grátt líkt og svo mörg önnur flugfélög. Stjórnendur félagsins reikna með að umsvifin næstu mánuði verði rétt um fjórðungur af því sem var í fyrra.

Um 4.500 starfsmenn easyJet hafa misst vinnuna síðustu mánuði og félagið hefur bæði fengið inn nýtt hlutafé frá eigendum sínum og selt flugvélar. Til viðbótar fékk easyJet lán frá breska ríkinu upp á 600 milljónir punda (108 milljarða kr.) en samkvæmt frétt Sky News nú í morgun þá hafa forráðamenn félagsins komið ósk um frekari opinberan stuðning á framfæri við bresku ríkisstjórnina.

Það var í mars árið 2012 sem easyJet hóf að fljúga til Íslands frá Luton flugvelli við London. Síðan bættist við Íslandsflug frá Manchester, Edinborg, Belfast, Bristol, Gatwick og Stansted. Einnig hóf félagið flug hingað frá Basel og Genf í Sviss. Félagið hafði þó fækkað ferðunum hingað og flugleiðunum töluvert áður en kórónuveirukreppan skall á.

Þessi grein sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti þeirra greina sem nú birtast á Túrista eru hins vegar aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú tryggt þér áskrift.