Hefja flug til Tenerife

Ekkert varð að áformum Icelandair um stóraukið Spánarflug í kjölfar falls WOW air. Nú ætlar félagið hins vegar að bæta Tenerife við leiðakerfi sitt.

Íslendingar hafa fjölmennt í sólarlandaferðir til Tenerife síðustu ár. Nú ætlar Icelandair að spreyta sig á áætlunarflugi þangað. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Hingað til hefur flug Icelandair til Tenerife takmarkast við leiguflug fyrir ferðaskrifstofur, þar á meðal systurfélagið Vita. Núna ætlar Icelandair þó að standa fyrir áætlunarferðum til spænsku eyjunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá flugfélaginu.

Ekkert varð af áformum Icelandair um stóraukið flug til sólarlandarstaða í kjölfar falls WOW air en það félag var stórtækt í áætlunarflugi til spænskra staða eins og Tenerife, Las Palmas og Alicante.

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian fyllti hins vegar það skarð sem WOW air skildi eftir sig. Norðmennirnir hafa hins vegar skorið niður starfsemi sína verulega að undanförnu og óljóst hvað verður um útgerð Norwegian á Spáni.