Íslandsflug ennþá á dagskrá næsta sumar

Þotur Finnair hafa ekki flogið hingað til lands síðan Covid-19 setti allt úr skorðum.

helsinki yfir
Frá Helsinki. Mynd: Ferðamálaráð Helsinki.

Þegar Evrópubúum var í sumarbyrjun gert auðveldara að fara á milli landa þá héldu Finnar áfram að takmarka ferðir til sín. Því það var ekki fyrr en um miðjan júlí sem finnsku landamærin opnuðust að einhverju ráði.

Þetta takmarkaði mjög starfsemi Finnair sem er til að mynda umsvifamikið í flugi til Asíu. Þaðan flytur félagið fjölda ferðamanna til Íslands eins og áður hefur verið fjallað um hér á síðum Túrista.

Finnair ætlaði að hefja flug til Keflavíkurflugvallar í haust en ekkert varð af því. Íslandsflug er þó hluti af sumaráætlun félagsins á næsta ári samkvæmt bókunarvél á heimsíðu Finnair. Þrátt fyrir það er ekkert í hendi því í svari blaðafulltrúa finnska flugfélagsins, við fyrirspurn Túrista, segir að áætlunin fyrir næsta sumar sé ekki endanlega frágengin.

Auk Finnair þá flýgur Icelandair reglulega milli Íslands og Helsinki. Íslenska félagið hefur þó ekki ennþá tekið upp þráðinn í þeim ferðum og þar með liggja allar samgöngur niðri milli Íslands og Finnlands.

Þessi grein sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti þeirra greina sem nú birtast á Túrista eru hins vegar aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú tryggt þér áskrift.