Lætur gagnrýnina sem vind um eyru þjóta og býður farmiða á 1.500 krónur

Wizz Air ætlar að láta til sín taka í Noregi jafnvel þó forsætisráðherra landsins hafi heitið að fljúga ekki með félaginu.

Frá flugvellinum í Ósló. MYND: AVINOR

Allt frá því að Wizz Air kynnti áform sín um að hefja innanlandsflug í Noregi þá hefur félagið mætt mikilli gagnrýni frá verkalýðsforystunni þar í landi. Ástæðan er sú að stjórnendur Wizz Air vilja ekkert með samtök launafólks hafa. Af þeim sökum hafa formenn fjölda verkalýðsfélaga beint því til félagsmanna sinna að sniðganga Wizz Air. Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, gaf það einnig út að hún myndi ekki fljúga með flugfélagi sem hefði þessa afstöðu í starfsmannamálum.

Þrátt fyrir það þá ætlar Wizz Air að koma sér upp starfsstöð í Noregi til sinna innanlandsflugi en hingað til hefur félagið látið nægja að fljúga til Noregs frá erlendum borgum. Á sama hátt og félagið gerir í flugi sínu til og frá Keflavíkurflugvelli.

Fyrst þegar Wizz Air svipti hulunni af þessu áformum nú í haust þá var ætlunin að hefja flug frá Ósló til Þrándheims, Bergen og Tromsö. Í dag bætti félagið svo um betur. Nú á að opna starfstöð í Þrándheimi og þar með getur félagið bætt við sjö flugleiðum í viðbót.

Og fargjöldin verða lág því þau ódýrustu verða á 99 krónur norskar eða um fimmtán hundruð íslenskar krónur.

Samkeppnin á norska markaðnum hefur verið hörð lengi því SAS og Norwegian bjóða upp á tíðar ferðir milli fjölmennustu borga landsins. Minni flugfélög eru svo með ferðir til annarra staða og framboðið er því töluvert enda er Noregur langt land þar sem víða er erfitt að bjóða upp á lestarsamgöngur.