Lán upp á 2 milljarða króna úr Ferðaábyrgðasjóði

Fimmtíu umsóknir um lán úr sjóðnum hafa borist. Frestur til að sækja um rennur út um mánaðamótin.

Lán úr Ferðaábyrgðasjóði eiga að nýtast til að endurgreiða pakkaferðir sem var aflýst á bilinu 12.mars til 30.september. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Fyrirtæki með ferðaskrifstofuleyfi geta fram til mánaðamóta óskað eftir láni í Ferðaábyrgðasjóð. Lánin eru veitt til auðvelda fyrirtækjum að endurgreiða viðskiptavinum pakkaferðir sem voru á dagskrá á tímabilinu 12. mars til 30. september í ár. Er þá horft til ferða sem var aflýst eða þær afpantaðar vegna aðstæðna sem ríkt hafa síðustu misseri.

Það er Ferðamálastofa sem sér um sjóðinn og sótt er um lán í gegnum þjónustugátt á vef stofnunarinnar. Þann 1. nóvember nk. hyggst Ferðamálastofa hefja formlegt eftirlit með lánveitingum úr sjóðnum.

Nú þegar hafa borist fimmtíu umsóknir um lán upp á samtals 2,3 milljarða króna úr Ferðaábyrgðasjóði. Samþykki hefur verið veitt fyrir lánum upp á rétt rúma 2 milljarða króna.