Margir áhugasamir um skíðaferðir í Alpana

Þrátt fyrir að ferðalög milli landa séu takmörkuð þessa dagana þá gera ófáir sér vonir um að komast til útlanda þegar líður á veturinn. Þar á meðal er stór hópur skíðaáhugafólks sem hefur skráð sig á lista hjá GB-ferðum.

Frá Andermatt í Sviss einum af áfangastöðum GB-ferða í Ölpunum. MYNDIR: GB-FERÐIR

„Við verðum með skíðaferðir til Evrópu í vetur því það er of mikil óvissa með Bandaríkin. Ferðir til Aspen eru því á ís þangað til Icelandair hefur flug til Denver á ný. Við kvörtum samt ekki því það er af nægu að taka í Evrópu, sérstaklega Sviss. Stóra málið hjá okkur í vetur verður Andermatt og Engelberg í Sviss ásamt Kitzbühel í Austurríki. Þetta eru skíðasvæði sem með aðgerðum sínum uppfylla allar ítrustu sóttvarnarkröfur. Við nýtum ferðir Icelandair til Zürich og München til að koma farþegum út,“ segir Jóhann Pétur Guðjónsson hjá GB-ferðum.

Spurður um eftirspurnina þá segir Jóhann að hún sé til staðar þó vissulega sé hún minni en á sama tíma í fyrra vegna ástandsins. Síðustu tvær vikur hafi salan þó glæðst. 

„Skíðaunnendur ætla ekki að láta núverandi ástand stöðva sig í að bóka skíðaferð enda tryggjum við öryggi fólks. Nú þegar hafa sex hundruð manns skráð sig á lista og vilja komast í skíðaferð hjá okkur í vetur. Svo það sé tekið fram þá fá viðskiptavinir okkar fulla endurgreiðslu í þeim tilfellum að lönd loka. Við áætlum að selja 600 til 800 einstaklingum skíðaferð í vetur ef ástandið verður eðlilegra á ný,“ segir Jóhann Pétur.

Til hvaða ráðstafana hefur verið gripið á skíðasvæðunum vegna kórónuveirunnar? 

„Í fyrsta lagi hafa sóttvarnir aukist til muna. Það er grímuskylda í almenningssamgöngum, rútum, kláfum og lestum. Sum svæði, til að mynda Andermatt, hafa bætt við lyftum ásamt því að stækka flest útisvæði veitingastaða enda eiga flest smit sér stað innanhúss samkvæmt„European Centre for Disease Prevention and Control“. Þannig að það má færa fyrir því rök að skíða- og golfferðir, þar sem þú ert utanhúss stóran hluta dagsins og forðast mannþröng á örðum tímum, teljist öruggur ferðamáti.“

Er verðið á ferðunum sambærilegt við það sem var í fyrra?

„Undanfarna mánuði höfum við unnið að því að endursemja við alla okkar birgja. Í sumum tilfellum hefur það tekist vel. Við ætlum að bjóða sama verð og við gerðum í fyrra til Andermatt og Engelberg þrátt fyrir 20 prósentveikingu krónunnar. Lægsta verðið fyrir vikuferð með flugi er 139.000 kr. á mann í þriggja herbergja íbúð (6 saman í íbúð) hjá Andermatt Alpine Apartments. Þetta eru nýjar og glæsilegar íbúðir í Andermatt í öllum stærðum og gerðum. Þessi gisting er fyrir þá sem vilja vera algjörlega út af fyrir sig og við finnum fyrir auknum áhuga á slíkri gistingu á þessum tímum,“ segir Jóhann Pétur hjá GB-ferðum að lokum.