Of fáir tóku þátt í hlutafjárútboði SAS

Danska og sænska ríkið urðu að kaupa það sem upp á vantaði.

MYND: SAS

Hlutafjárútboð SAS upp á fjóra milljarða sænskra króna lauk í dag. Niðurstaðan var sú að fjárfestar skráðu sig fyrir 90,5 prósent af þeim hlutum sem í boði voru.

Stærstu eigendur SAS, danska og sænska ríkið, höfðu fyrirfram skuldbundið sig til að kaupa það sem upp á vantaði og nemur sá aukareikningur tæpum sjö milljörðum íslenskra króna.

Sú upphæð bætist við nýtt hlutafé upp á 32 milljarða íslenskra króna sem þrír stærstu hluthafa SAS settu inn í félagið nýverið. Það eru ríkssjóðirnir tveir og Wallenberg fjölskyldan.

Í heildina fær SAS því inn um 96 milljarða króna í nýtt hlutafé eða um sex milljarða sænskra króna.

Vægi danska og sænska ríkisins mun hækka nokkuð í hluthafahópnum eftir þessa hlutafjáraukningu en fyrir hana átti hvor ríkissjóður fyrir sig nærri fimmtán prósent í þessu stærsta flugfélagi Norðurlanda.