Segir ekki óeðlilegt að breytingar verði gerðar á stjórn Icelandair Group

Eftir hlutafjárútboð Icelandair Group þá hefur vægi stærstu eiganda breyst töluvert frá síðasta aðalfundi.

Lífeyrisstjóðurinn LSR er orðinn stærsti hluthafinn í Icelandair Group með 7,99 prósent hlut eftir að hafa keypt ný hlutabréf fyrir rúmlega 1,8 milljarð króna í nýafstöðu hlutafjárútboði. Næst stærsti hluthafinn er lífeyrissjóðurinn Gildi með 6,61 prósent hlut.

Fyrir hlutafjáraukningu voru þessir tveir sjóðir meðal stærstu hluthafa Icelandair samsteypunnar. Þeir áttu þó minna en Stefnir, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og PAR Capital Management og þar með höfðu þessir þrír fleiri atkvæði í síðasta stjórnarkjöri Icelandair sem fram fór á aðalfundi fyrirtækisins í byrjun mars sl.

Spurður hvort Gildi muni styðja eða beita sér fyrir vali á nýrri stjórn, í ljósi breyttra eignarhlutfalla, þá segir Aðalbjörn Sigurðsson, forstöðumaður upplýsingamála hjá Gildi, að ekki sé óeðlilegt að breytingar verði gerðar á stjórn félagsins, enda hafa orðið miklar breytingar í hluthafahópnum. „Umræður um málið hafa hins vegar ekki farið fram á vettvangi stjórnar Gildis,“ bætir Aðalbjörn við.

Túristi hefur óskað eftir skoðun Hörpu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra LSR, á stöðu stjórnar Icelandair Group eftir hlutafjárútboðið. Svar Hörpu verður birt þegar það berst.

Formaður stjórnar Icelandair Group í dag er Úlfar Steindórsson og með honum í stjórn eru þau Svafa Grönfeldt, Nina Jonsson, Guðmundur Hafsteinsson og John F. Thomas.

Nú er örstutt í að stór hluti þess efnis sem hér birtist verði aðeins aðgengilegt áskrifendum. Tekjur af auglýsingasölu duga einfaldlega ekki lengur til að halda úti metnaðarfullum skrifum um ferðalög og ferðaþjónustu.