Segir flugmenn hafa lagt mest af mörkum

Formaður FÍA segir flugmenn Icelandair ósátta við þann fjölda upsagna sem þeir hafa þurft að sæta. Hann bendir á að stéttin hafi gefið mikið eftir af sínum kjörum. Einnig hafi flugmenn tekið þátt í hlutafjárútboðinu bæði persónulega og í gegnum eftirlaunasjóð sinn.

Mynd: Icelandair

Nú um mánaðamótin misstu sextíu og átta flugmenn Icelandair vinnuna eða um helmingur þeirra sem ennþá var við störf hjá félaginu eftir niðurskurð síðustu mánaða. Engum flugfreyjum eða flugþjónum var sagt upp að þessu sinni en starfshlutfall þeirrar stéttar var fært niður í 75 prósent í lok ágúst til að koma í veg fyrir hópuppsagnir.

Stjórnendur Icelandair óskuðu hins vegar hvorki þá né nú eftir því að flugmenn myndu lækka starfshlutfall sitt til að koma í veg fyrir hópuppsögnina í fyrradag. Það staðfestir Jón Þór Þorvaldsson, formaður FÍA, í svari til Túrista.

„FÍA biðlaði þó til Icelandair að skoða allar aðrar leiðir en uppsagnir. Til að mynda að kanna hug flugmanna til lækkunar starfshlutfalls tímabundið, bjóða eldri flugmönnum upp á starfslokasamninga eða nýta veturinn til þjálfunar á Boeing 737 MAX.“ Auk alls þessa þá buðust flugmenn jafnframt til að taka út áunnið orlof á meðan flugáætlun félagsins gerir ráð fyrir fáum ferðum bætir Jón Þór við.

Gefið eftir fjölda réttinda og fjárfest í félaginu

Hann segir flugmenn Icelandair ósátta við þann fjölda uppsagna sem hópurinn hefur þurft að sæta. „Það má öllum vera ljóst að flugmenn lögðu mest til af öllum hópum starfsmanna Icelandair í endurskipulagningu félagssins í kjölfar Covid-19 faraldursins. Flugmenn hafa opnað kjarasamninga sem voru í gildi í tvígang, seinkað umsömdum launahækkunum, skert laun tímabundið um helming og tekið á sig launalækkanir. Einnig aukið vinnuskyldu, rýmkað flug- og vakttíma, minnkað hvíldartíma, gefið eftir orlof, skert frídaga og tekið á sig  launafrystingu svo eitthvað sé nefnt.“

Formaður FÍA bendir einnig á þátttöku eftirlaunasjóðs félagsins í hlutafjárútboði Icelandair en sjóðurinn er nú meðal stærstu hluthafa samsteypunnar. Til viðbótar hafi flestir flugmenn félagsins tekið þátt persónulega í útboðinu til að tryggja framtíð félagsins bætir Jón Þór við.

Vetrinum hefði verið betur varið í þjálfun á MAX þoturnar

Vegna heimsfaraldursins þá hafa flest, ef ekki öll flugfélög, þurft að segja upp starfsmönnum og þar með flugmönnum. Jón Þór fullyrðir þó að ekkert flugfélag hafi sagt upp svo stórum hluta sinna flugmanna eins og Icelandair hefur gert.

„Það eru allar líkur á því að félagið þurfi á flugmönnum sínum að halda fyrr en seinna,“ segir formaður FÍA og vísar til þess að ef Icelandair ætli að taka Boeing MAX þotur í gagnið í vor þá þurfi hefja þjálfun fljótlega.

„Við teljum því að vetrinum hefði verið betur varið í þjálfanir sem nauðsynlegar eru til að viðhalda réttindum á núverandi flota og til tegundaráritanna á Boeing 737 MAX. Þjálfunin er tímafrek og gera má ráð fyrir að ekki þurfi minna en tvo mánuði til að þjálfa áhöfn til nýrrar tegundaráritunnar. Ef Icelandair ætlar að fljúga Boeing 737 MAX vélunum næsta vor mun þurfa að lágmarki um fjóra mánuði að ljúka þjálfunum á áhöfnum fyrir sex þotur.“

Jón Þór segir að önnur flugfélög, sem ætla að fljúga MAX þotum, séu um þessar mundir að skipuleggja þjálfun á tímabilinu frá nóvember næstkomandi og fram í janúar á næsta ári.