Matthías Sveinbjörnsson hefur verið ráðinn forstöðumaður tekjustýringar hjá Icelandair á nýjan leik en hann sinnti starfinu á árunum 2010 til 2017. Á þeim tíma var flugfélagið rekið með hagnaði ár eftir ár. Staða yfirmanns tekjustýringar hefur verið laus frá því í sumarlok þegar Bryan O´Sullivan lét af störfum hjá flugfélaginu eftir eins árs viðveru.
Matthías hóf fyrst störf hjá Icelandair árið 2006 sem deildarstjóri rekstrarstýringar en hann er með meistaragráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Auk þess er Matthías með atvinnuflugmannsréttindi og hefur starfað hjá Icelandair sem slíkur frá árinu 2017 samkvæmt því sem segir í tilkynningu til starfsmanna Icelandair fyrr í dag.
Þar er önnur reynsla hans af fluggeiranum einnig rakin. Matthías hefur meðal annars tekið að sér nefndarsetu og ráðgjafarverkefni fyrir Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) og Samgönguráðuneytið. Þá er hann stundakennari í verkfræði í Háskólanum í Reykjavík.
Að undanförnu hefur Matthías starfað sem tímabundinn framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna og tók þar með þátt í samningaviðræðum félagsins við Icelandair í vor.
Þessi grein sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti þeirra greina sem nú birtast á Túrista eru hins vegar aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú tryggt þér áskrift.
Sjá einnig: Hlutdeild Icelandair niður fyrir tíund á einni arðbærustu flugleiðinni.