Telur breytingar á MAX þotunum vera fullnægjandi

Hinar umtöluðu MAX þotur gætu komist í loftið fyrir áramót.

MAX þota Icelandair í Berlín áður en flugbannið var sett á. Mynd: Berlin Airport

Yfirmaður flugöryggisstofnunnar Evrópu telur að þær endurbætur sem gerðar hafa verið á Boeing MAX þotunum uppfylli kröfur stofnunarinnar. Þar með gæti nítján mánaða kyrrsetningu þotanna farið að ljúka. Þetta kemur fram á vef Bloomberg fréttaveitunnar nú í morgun.

Evrópska flugöryggisstofnunin gerði tilraunir á þotunum nú í haust og strax í næsta mánuði gætu þoturnar fengið vottorð um flughæfni á ný frá stofnuninni samkvæmt frétt Bloomberg.

Icelandair hafði tekið sex MAX8 og MAX9 þotur í notkun áður en allar flugvélar af þessari gerð voru kyrrsettar í mars í fyrra í kjölfar tveggja flugslysa þar sem 346 manns misstu lífið.

Sex MAX þotur til viðbótar bættast svo við flota Icelandair á næstu tveimur árum í takt við samkomulag sem gert var við Boeing í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins í sumar.

Þessi grein sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti þeirra greina sem nú birtast á Túrista eru hins vegar aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú tryggt þér áskrift.