Þriðji hver farþegi var íslenskur

Í takt við samdrátt í millilandaflugi þá hækkar hlutfall heimamanna í Leifsstöð.

Flugumferðin um Keflavíkurflugvöll dróst saman um 89 prósent í september en farþegafjöldinn ennþá meira. Nú áttu aðeins um fimmtán þúsund farþegar leið um Leifsstöð eða nærri 96 prósent færri en á sama tíma í fyrra.

Af þessum fjölda þá voru erlendir farþegar 10.126 samkvæmt talningu Ferðamálastofu en Íslendingarnir 4.898.

Þar með var vægi þeirra heimamanna um þriðjungur en hlutfallið var rétt um 11 prósent í ágúst og tæplega fjórðungur í júlí. Núgildandi regla, um að allir fari í sóttkví við komuna til landsins, gekk í gildi þann 19. ágúst sl.

Þjóðverjar voru fjölmennastir í hópi erlendu farþeganna í september en þar eftir komu Pólverjar eins og sjá má á lista Ferðamálastofu hér fyrir neðan.

Hafa ber í huga að útlendingar, búsettir á Íslandi, eru meðtaldir.

Þessi grein sem þú varst að lesa er öllum opin. Stór hluti þeirra greina sem nú birtast á Túrista eru hins vegar aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú tryggt þér áskrift.