Túristi í áskrift

Nú eru ellefu ár liðin frá því Túristi hóf göngu sína. Á þeim tíma hafa birst á síðunni nærri fimm þúsund greinar og lesendur eru á bilinu 35 til 50 þúsund í mánuði. Þetta er mun meiri lestur en ég gerði mér vonir um þegar Túristi fór í loftið sumarið 2009.

Það er fullt starf að halda Túrista úti og tekjur af auglýsingasölu hafa dugað einum manni. Það hefur þó lengi verið ætlunin að efla útgáfuna. Tekjurnar hafa hins vegar ekki aukist í takt við lesturinn og nú er botninn dottinn úr auglýsingamarkaðnum.

Það liggur því beinast við að fylgja fordæmi fjölda erlendra netmiðla og læsa stórum hluta af efni Túrista. Þar með geta aðeins áskrifendur lesið allar þær greinar sem á síðunni birtast.

Ég held að lesendur Túrista hafi fyrir löngu áttað sig á mikilvægi síðunnar í umfjöllun um málefni ferðaþjónustunnar. Stór hluti frétta um hræringar í atvinnugreininni eiga sér uppruna hér og hvergi annars staðar.

Þar sem íslenski markaðurinn er fámennur og efnistökin hér á Túrista sérhæfð þá eru væntingar mínar um fjölda áskrifenda hóflegar og verðlagning tekur mið af því. Mánaðaráskrift mun kosta 2.650 krónur en ef greitt er fyrir þrjá mánuði í einu fæst 15 prósent afsláttur. Verðið er þá 6.750 kr. fyrir tímabilið eða um 75 krónur á dag. 

Ég hlakka til ferðalagsins sem er framundan með hópi áskrifenda en áfram munu birtast hér stöku greinar sem verða öllum opnar. 

Smelltu hér til að tryggja þér áskrift

Kristján Sigurjónsson
Túristi.is