Wizz Air boðar sókn í Noregi

Ungverska lágfargjaldaflugfélagið skorar SAS og Norwegian á hólm á þeirri eigin heimavelli.

Tvær Airbus þotur á vegum Wizz Air verða nú nýttar í að fljúga farþegum frá Ósló til Bergen, Þrándheims og Tromsö. Þetta kom fram á blaðamannafundi József Váradi, framkvæmdastjóra Wizz Air, sem nú var að ljúka í Ósló. Hann útilokar ekki að umsvif flugfélagsins í Noregi og í Skandinavíu muni aukast í beinu framhaldi.

Norwegian, SAS og Widerøe eru í dag stærstu flugfélögin á norska markaðnum og í norskum fjölmiðlum eru leiddar líkur að því að að með tilkomu Wizz Air þá brjótist út verðstríð á markaðnum.

Norskt innanlandsflug hefur dregist mun minna saman í heimsfaraldrinum en millilandaflug. Þannig fækkaði farþegum í innanlandsflugi á flugvöllunum í Þrándheimi og Tromsø um fjörutíu af hundraði í ágúst. Það er töluvert minni niðursveifla en almennt hefur orðið í flugi innan Evrópu.

Wizz Air hefur verið stórtækt í flugi frá Keflavíkurflugvelli síðustu ár og stóð fyrir álíka mörgum ferðum héðan í síðasta mánuði og Icelandair gerði.