52 milljarðar króna á reikningnum í vetrarbyrjun

Vikan hefur byrjað með alvarlegum tíðindum af Norwegian.

norwegian 3

Jacob Schram, forstjóri Norwegian, gat ekki leynt vonbrigðum sínum í gær með ákvörðun norsku ríkisstjórnarinnar að styðja ekki enn frekar við rekstur Norwegian á þessum óvissutímum. Á fundi með blaðamönnum í gærmorgun líkti forstjórinn ákvörðuninni við kjaftshögg og hann útilokaði ekki gjaldþrot félagsins.

Nú í morgunsárið birti Norwegian svo uppgjör fyrir þriðja fjórðung ársins og skiljanlega voru tölurnar þar rauðar.

Tapið á þessu þriggja mánaða tímabili nam 980 milljónum norskra króna fyrir skatt sem jafngildir um 15 milljörðum íslenskra króna. Lausafjárstaða félagsins versnaði líka umtalsvert eða um rúmlega hálfan milljarð norskra króna á mánuði samkvæmt frétt E24. Þar með hafði félagið í sjóðum sínum um 3,4 milljarða norskra króna í lok september. Sú upphæð nemur um 52 milljörðum íslenskra króna.

Það er því tæpt að Norwegian komist í gegnum veturinn án viðbótar fjármagns líkt og fram hefur komið í máli forsvarsmanna félagsins.

Norwegian hefur líkt og önnur flugfélög þurft að draga verulega úr umsvifum sínum vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Þannig minnkaði sætaframboðið um 94 prósent á tímabilinu júlí til september sem er vanalega það arðbærasta í rekstri flugfélaga. Farþegunum fækkaði aðeins minna eða um 91 prósent.