Aðeins 15 prósent flugvalla í heiminum eru alfarið í eigu einkaaðila

Það er algengara en ekki að flugvellir séu í opinberri eigu. Þrátt fyrir það stenst Keflavíkurflugvöllur ekki samkeppni við aðra flugvelli að mati OECD.

MYND: ISAVIA

Keflavíkurflugvöllur er einn óhagkvæmasti og dýrasti flugvöllur Evrópu og sú fullyrðing stendur jafnvel þó horft sé til álíka stórra flugvalla sem starfræktir eru við sambærileg veðurskilyrði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri úttekt OECD á Isavia og flugþjónustu hér á landi.

Til að draga úr kostnaði og auka samkeppnihæfni flugvallarins þá leggur OECD til að skoðað verði breytt eignarhald flugvallarins eða reksturinn boðinn út og þar gæti Isavia tekið þátt. Isavia er í dag opinbert hlutafélag í eigu hins opinbera.

Í skýrslu OECD er þó tekið fram að í dag er 67 prósent flugvalla í heiminum í eigu opinberra aðila og eignarhaldið þá svipað og hér á landi. 18 prósent flughafna eru í blandaðri eigu og aðeins fimmtán prósent eru alfarið í einkaeigu.

Í Bandaríkjunum tíðkast til að mynda að sveitarfélög reki flugvelli og þar í landi er aðeins einn áætlunarflugvöllur í einkaeigu líkt og Túristi hefur fjallað um. Flugforstjórar í Evrópu hafa líka bent á að evrópskir flugvellir eru almennt dýrari en þeir bandarísku þar sem krafan um arðsemi er há meðal eigenda evrópsku flugvallanna.

Nánar verður fjallað um úttekt OECD á Keflavíkurflugvelli og Isavia hér á síðum Túrista í dag.