Aðstaðan best á Kaupmannahafnarflugvelli fyrir fatlaða farþega

Frá Kaupmannahafnarflugvelli. MYND: CPH

Af öllum flugstöðvum Evrópu þá þykir sú við Kastrup hafa upp á bestu aðstöðuna að bjóða fyrir farþega með fötlun eða skerta hreyfigetu. Þetta kemur fram í nýrri umsögn samtaka evrópskra flugvalla, ACI Europe.

Þar er bent á að aðgengi að flugstöðinni er gott fyrir farþega hvort sem þeir nýta almenningssamgöngur eða einkabíl til að koma sér á staðinn. Til marks um það þá eru stæði fyrir fatlaða aðeins fimmtíu metra frá flugstöðinni.

Farþegar sem þurfa aðstoð við að komast á milli staða í flugstöðinni geta líka gengið að þeirri þjónustu vísri jafnvel þó hún hafi ekki verið bókuð fyrirfram.

Einnig er það nefnt sem kostur að hægt er að lækka afgreiðsluborð í innritunarsal þannig að starfsmenn þar geta verið í augnhæð við alla farþega.

Flugvöllurinn í Malaga á Spáni fékk einnig hrós frá ACI fyrir þá þjónustu sem farþegar með sérþarfir fá þar á bæ.