Ætla að tengja saman leiðakerfi flugfélaga sem starfa á sitthvorum flugvellinum í dag

Hér á landi er ekki hægt að tengja saman alþjóðaflug og innanlandsflug öfugt við það sem tíðkast út í heimi. Forstjóri Icelandair boðar nú betri tengingu á milli leiðakerfis Icelandair og Air Iceland Connect.

airicelandconnect
MYND: AIR ICELAND CONNECT

Unnið hefur verið að því síðan í vor að sameina rekstur Icelandair og Air Iceland Connect sem bæði tilheyra Icelandair samsteypunni. Sú vinna stendur ennþá yfir.

Í útvarpsfréttum RÚV í gær sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, að til greina kæmi að fella rekstur Air Iceland Connect alfarið undir Icelandair.

„Við erum að horfa til einföldunar og að straumlínulaga reksturinn. Bæði til að lækka kostnað en ekki síður til að styrkja tekjugrunn beggja félaga. Tengja saman leiðakerfin betur en áður og bókunarkerfi og þess háttar,“ útskýrði Bogi Nils.

Ekki kom þó fram í frétt Rúv hvernig tengja á saman leiðakerfi flugfélaganna tveggja þegar þau halda úti áætlunarflugi frá sitthvorum flugvellinum. Túristi hefur óskað eftir útskýringum frá Icelandair á því og mun birta svarið þegar það berst.

Rekstur Air Iceland Connect hefur verið þungur síðustu ár. Þannig nam heildartap félagsins, fyrir skatt, samtals 2,2 milljörðum króna síðustu fimm ár. Í fyrra náði félagið að rétta úr kútnum og nam hagnaðurinn þá 125 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá flugfélaginu.

Meðal þeirra aðgerða sem stjórnendur þess gripu til í fyrra var að fækka flugvélum og ferðum. Þannig dróst sætaframboð félagsins saman um fimmtung í fyrra og farþegum fækkaði um tólf prósent