Ætla til Kanaríeyja um jólin

Við sundlaugarbakka á Tenerife. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Tvær af stærstu ferðaskrifstofum landsins, Heimsferðir og Úrval-Útsýn, hafa hætt við ferðir sínar til Kanaríeyja í desember og janúar. Aftur á móti ætlar VITA að halda sínu striki og mun ferðaskrifstofan bjóða upp á samtals þrjár ferðir til spænsku eyjanna fyrir jól.

Fyrri ferðin til Tenerife er á dagskrá 21. desember og komið verður heim 2. janúar. Seinni ferðin til eyjunnar er frá 22. desember til 5 janúar.

Til Gran Canaria verður farin ein jóla- og áramótaferð, frá 22. desember til 4. janúar.

Í janúar verða svo í boði vikulegar brottfarir til Tenerife og tvær ferðir til Gran Canaria. Þráinn Vigfússon, framkvæmdastjóri VITA, segist vonast til að hægt verði að fjölga ferðunum til Tenerife upp í tvær í viku frá og með febrúar og þá verði flogið vikulega til Gran Canaria.

Að sögn Þráins hefur verið haft samband við alla farþega sem voru bókaðir í ferðir VITA yfir hátíðirnar og þeim gefinn kostur á að seinka brottför eða fá inneign.

„Þó nokkuð var um að farþegar þáðu það en margir voru ákveðnir í að fara. Það er því töluvert af lausum sætum í ferðirnar eins og staðan er í dag,“ bætir Þráinn við.