Bæði bresku félögin bíða með ferðir til Íslands

Þrjú af þeim fjórum flugfélögum sem fljúga milli Íslands og Bretlands hafa gert hlé á ferðunum.

Frá Heathrow flugvelli í London. Mynd: Heathrow Airport

Síðustu vikur hefur British Airways haldið úti reglulegum ferðum milli Íslands og Heathrow flugvallar við London. Icelandair hefur aftur á móti aflýst flestum sínum ferðum til Heathrow en fór þó eina ferð sl. sunnudag.

Nú á föstudaginn er aftur á móti komið að síðustu ferð breska flugfélagsins héðan í bili því samkvæmt heimasíðu félagsins er næsta brottför ekki á dagskrá fyrr en í byrjun janúar.

Biðin eftir því að easyJet hefji flug að nýju verður þó styttri því fyrir jól er von á þotum þess félags hingað til lands á ný. Þá frá Edinborg, Manchester og Luton, skammt frá London. Frá Luton býður Wizz Air líka upp á flug til Íslands en þær ferðir liggja niðri í það minnsta fram í miðjan janúar.

Sem fyrr segir hefur Icelandair að mestu haldið sig frá London að undanförnu þó uppfærð flugáætlun félagsins geri ráð fyrir daglegum ferðum til Heathrow. Næstu vikur verður félagið þó eitt um ferðirnar til bresku höfuðborgarinnar.

Það gæti þó orðið sérstaklega fámennt í þotunum sem fljúga til og frá Bretlandi næstu vikur vegna hertari aðgerða þar í land til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Fjöldi alþjóðlegra flugfélaga hefur aflýst ferðum þangað vegna þeirra sóttvarnaraðgerða sem nú gilda í landinu.

Tæplega sautján hundruð farþegar flugu milli Íslands og Bretlands í september en þeir voru um 78 þúsund á sama tíma í fyrra samkvæmt tölum frá breskum flugmálayfirvöldum. Svona upplýsingar eru ekki opinber gögn á Íslandi.

Þessi frétt er öllum opin en meirihluta þeirra greina Túrista eru núna aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift