Einfaldara fyrir Færeyinga í Danmörku að fljúga heim um jólin

Þotur Atlantic Airways verða mun oftar á ferðinni til danskra flugvalla i lok árs en flugvélar Icelandair.

Frá Færeyjum. Mynd: Joni hedinger / Ferðamálaráð Færeyja

Færeyingar sem fara heim í jólafrí þurfa ekki í sóttkví. Hins vegar er gerð krafa um skimun fyrir brottför, við komuna til Færeyja og svo sex dögum síðar. Hér á landi kemst enginn hjá sóttkví, annað hvort í fimm daga eða tvær vikur.

Þessi munur kann að skýra ólíkar áherslur stjórnenda flugfélags Færeyinga, Atlantic Airways, og Icelandair þegar kemur að flugi frá Danmörku í næsta mánuði en Íslendingar og Færeyingar eru fjölmennir þar í landi.

Þannig eru um sex þúsund Færeyingar með lögheimili í Danmörku og um níu þúsund Íslendingar samkvæmt tölum hagstofu Dana. Hóparnir eru stærri þegar námsmenn og fleiri sem búa þar tímabundið eru teknir með í reikninginn.

Bæði flugfélög hafa haldið áfram að fljúga til Kaupmannahafnar síðustu mánuði en ferðir Atlantic Airways til borgarinnar verða tíðari fyrir jólin. Þá munu þotur félagsins fljúga allt að þrisvar sinnum á dag til Kastrup. Icelandair lætur tvær duga en þó á stærri þotum.

Áherslumunurinn er miklu meiri þegar horft er til Billund á Jótlandi, næst stærsta flugvallar Danmerkur. En það er hefð fyrir sérferðum Icelandair þangað í kringum jól og áramót og stóð félagið fyrir samtals átta ferðum til og frá Billund á þessu tímabili síðast.

Í heildina nýttu 1.102 farþega sér ferðirnar samkvæmt tölum frá dönskum flugmálayfirvöldum. Það segir okkur að þrjú af hverjum fjórum sætum í vélunum hafa verið skipuð farþegum. Að þessu sinni verða ferðirnar helmingi færri.

Stjórnendur Atlantic Airways sjá hins vegar miklu stærra tækifæri í flugi til Jótlands. Þotur félagsins munu nefnilega fljúga samtals tólf ferðir til og frá Billund seinni hlutann í desember og líka eftir áramót. Til viðbótar stendur félagið líka fyrir fjórum ferðum til og frá Álaborg, á Norður-Jótlandi, í lok desember. Sú borg hefur ekki verið hluti af flugáætlun Icelandair.

Þessi grein er öllum opin en meirihluti frétta Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Hér getur þú keypt áskrift.