Ekki lengur hægt að panta sæti í ferðir sem aldrei verða farnar

Stjórnendur Icelandair hafa tekið upp nýja starfshætti og þar með er einfaldara fyrir þá sem þurfa til útlanda að sjá hvaða ferðir eru sannarlega í boði.

Svona voru ferðir Icelandair merktar á heimasíðum erlendra flugvalla. Nú hefur félagið aftur á móti bætt upplýsingagjöf til flugvalla og neytenda.

Þrátt fyrir að þotur Icelandair hafi ekki sést í París, Ósló, Stokkhólmi eða Berlín í margar vikur þá hefur verið opið fyrir bókanir í ferðir þangað í allt haust. Á þetta misræmi benti Túristi á fyrir helgi en þá var hægt að kaupa miða í ferðir til þessara fjögurra borga alla þessa viku sem nú er að hefjast. Jafnvel þó Icelandair hafi ekki flogið þangað síðan í sumarlok.

Nú hafa stjórnendur Icelandair aftur á móti tekið þessar borgir úr sölu næstu vikur. Þar með verður einfaldara fyrir neytendur að átta sig á því hvert flugfélagið flýgur í raun og veru þessa dagana. Staðan hefur nefnilega valdið ruglingi meðal fólks líkt og Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmastjóri Neytendasamtakanna, benti á í samtali við Túrista.

Það er líka allt annað að sjá heimasíðu Keflavíkurflugvallar eftir að Icelandair hóf að taka út allar aflýstar ferðir. Áður settu þessar ferðir sterkan svip á dagskrá dagsins á heimsíðu Keflavíkurflugvallar enda aflýsti félagið að jafnaði átta ferðum á dag fyrstu tvær vikurnar í október. Á sama tíma flugu þotur félagsins kannski eina til þrjár ferðir á dag.

Komur og brottfarir Icelandair voru líka stundum þær einu á heimasíðum erlendra flugvalla sem merktar voru „cancelled“ líkt og Túristi fjallaði um þann 13. október.

Tveimur dögum síðar breytti Icelandair svo um takt og nú eru ferðir félagsins ekki lengur merktar með rauðu út i heimi.

Nú er að sjá hvort Icelandair uppfæri líka flugáætlun sína því hún gerir ráð fyrir daglegum ferðum til Kaupmannahafnar og London. Í síðustu viku fór Icelandair aftur á móti bara eina ferð til London og felldi líka niður ferðir til Kaupmannahafnar.