Engar ferðir til Kanaríeyja á meðan Spánn er „rauður“

Frá Gran Canaria. Mynd: Jose Antonio Jiménez Macías / Unsplash

Nú hafa Heimsferðir og Úrval-Útsýn, tvær af þremur stærstu ferðaskrifstofum landsins, fellt niður ferðir sínar til Kanaríeyja í desember og janúar.

Í nágrannalöndunum eru ennþá til sölu jóla- og áramótaferðir til spænsku eyjaanna en það gæti þó breyst fljótlega. Í svari frá TUI í Noregi, einni stærstu ferðaskrifstofunni þar í landi, segir til að mynda að nú sé verið að endurskoða dagskrána. Það liggi þó ljóst fyrir að ekki verði flogið til landa sem norsk stjórnvöld hafa flokkað sem rauð vegna mikillar útbreiðslu kórónaveirunnar.

Í dag er öll Evrópa rauðmerkt hjá norskum stjórnvöldum ef frá eru talin nokkur héruð í Finnlandi. Þar með þurfa Norðmenn að fara í tíu daga sóttkví við heimkonuna. Hér á landi er krafa um helmingi styttri sóttkví og tvær skimanir.