Fella niður jóla- og áramótaferðir til Kanaríeyja

Það verður fámennara á baðströndum Kanaríeyja í vetur. Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Úrval-Útsýn hefur fellt niður öll bein flug til Tenerife og Kanarí frá 19. desember til 31. janúar á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ferðaskrifstofunni.

Þar segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin sökum þess að aðstæður á eyjunum eru ekki eins og þær eigi að vera á sólaráfangastöðum ferðaskrifstofunnar og um leið óviðráðanlegar. Auk þess var ekki hægt að tryggja nægilega þátttöku í ferðunum til spænsku eyjanna á tímabilinu sem um ræðir.

„Við höfðum haldið í vonina um að aðstæður myndu breytast til hins betra en nú er verið að herða reglurnar á Kanaríeyjunum. Aðstæður þar eru ekki beint spennandi fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, í tilkynningu.

Haft hefur verið samband  við alla þá viðskiptavini sem eiga bókaðar ferðir sem nú hafa verið felldar niður. Fólk sem vill komast út í heim getur áfram leitað til Úrval-Útsýn með aðstoð við að finna heppilegt flug.

Líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku hafa Heimsferðir líka fellt niður ferðir sínar til Kanaríeyja í desember og janúar.