Ferðakostnaður ríkisins lækkaði um 60 prósent

Heimsfaraldurinn hefur dregið verulega úr ferðalögum og ferðakostnaðurinn því lækkað verulega hjá ríkinu.

MYND: AMAN BHARGAVA / UNSPLASH

Ferðakostnaður ríkisins lækkaði á fyrstu níu mánuðum ársins um 1,8 milljarða króna og fór úr þremur milljörðum kr. árið 2019 í tæpa 1,2 milljarða árið 2020. Lækkunin nemur um 60 prósentum en hana má rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eins og segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Þar er útskýrt að ferðakostnaðurinn eigi við ferðalög og uppihald á ferðalögum á Íslandi og erlendis. Tölurnar ná til A-hluta stofnana ríkisins sem eru um 160 talsins. Þar undir eru ráðuneytin og undirstofnanir þeirra, svo sem framhaldsskólar, háskólar, sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir, sýslumanns- og lögreglustjóraembætti.

Í Stjórnarráðinu lækkaði ferðakostnaður um 173 m.kr. á tímabilinu eða 71%. Ferðakostnaður ráðuneyta nam á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 243 m.kr. en 70 m.kr. á sama tímabili ársins 2020.

„Þegar skoðaður er ferðakostnaður einstakra stofnana sést að mest lækkun milli áranna 2019 og 2020 er hjá Háskóla Íslands, Landspítala og Landhelgisgæslu Íslands eða alls um rúmlega 500 milljónir króna,“ segir í frétt Stjórnarráðsins.