Fimm smitaðir hjá Wizz Air

Ungverska lággjaldaflugfélagið hóf innanlandsflug í Noregi í síðustu viku og nú hafa fimm úr áhöfnum félagsins greinst með Covid-19.

Mynd: Wizz Air

Stórsókn Wizz Air á norska markaðnum er hafin en félagið ætlar sér að bjóða upp á innanlandsflug milli norskra borga og bæja í vetur. Fargjöldin eru lág eða frá 99 norskum krónum sem jafngidlir um fimmtán hundruð íslenskum krónum.

Útgerð Wizz Air í Noregi byggir á áhöfnum frá Póllandi en þar í landi er útbreiðsla kórónaveirunnar talsvert hærri en í Noregi. Og eftir fyrstu vikuna þar í landi þá hafa fimm starfsmenn Wizz Air veikst af Covid-19 og eru nú í sóttkví á hótelum í Ósló. Þetta kemur fram í frétt Dagens Næringsliv.

Samtals eru um hundrað og fimmtíu flugmenn og flugfreyjur að störfum í Noregi á vegum Wizz Air í tengslum við innanlandsflugið. Og talsmenn flugfélagsins fullyrða að öllum reglum varðandi skimanir og sóttkví hafi verið fylgt.

Þess má geta að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefur gefið út að hún muni ekki fljúga með Wizz Air í ljósi þess að félagið virðir ekki rétt starfsmanna til að vera í verkalýðsfélögum. Forkólfar launþega í Noregi hafa sömuleiðis hvatt félagsmenn sína til að sniðganga félagið.

Wizz Air er mjög stórtækt í Íslandsflugi en næstum allar ferðir félagsins til Íslands liggja niðri fyrir utan flug til Varsjár.