Fjárhagsleg endurskipulagning á Írlandi er næsta skref Norwegian

Stjórnendur Norwegian ætla að óska eftir greiðsluskjóli fyrir tvö írsk dótturfélög fyrirtækisins. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá félaginu nú fyrir skömmu en í hádeginu voru viðskipti með bréf félagsins stöðvuð í kauphöllinni í Ósló.

Í tilkynningunni segir að ofannefnd leið sé valin þar sem bróðurpartur flugflota félagsins tilheyri dótturfélögunum á Írlandi og þar með stór hluti af skuldum flugfélagsins.

Stjórnendur Norwegian segja að félagið hafi nægt lausafé til að ráðast í þetta greiðsluskjólsferli á Írlandi en það gæti tekið um fimm mánuði.

Blaðamannafundur á vegum norska flugfélagsins hefur verið boðaður klukkan 17 að íslenskum tíma og mun Túrista flytja fréttir þaðan.