Flugfélögin ruku upp

Þátttakendur í hlutabréfaútboði Icelandair önduðu mögulega léttar í dag þegar gengi bréfa félagsins fór í fyrsta sinn yfir eina krónu á hvern hlut. Gengi bréfa í SAS og Finnair hækkaði ennþá meira.

MYND: ISAVIA

Gengi hlutabréfa í Icelandair hækkaði um tuttugu og tvö prósent í dag sem rekja má til frétta af jákvæðum niðurstöðum í prófunum á bóluefni hjá lyfjaframleiðandnum Pfizer. Við lokun kauphallarinnar í dag var gengið 1,1 króna á hvern hlut. Þetta í fyrsta skipti frá því að hlutafjárútboði félagsins lauk í september sem virði bréfanna fer yfir útboðsgengið sem var ein króna á hlut.

Verðmæti fleiri evrópskra flugfélaga hækkaði mikið í dag í kjölfar fréttanna af þróun bóluefnis við Covid-19. Hjá þessum stóru var hækkunin mest hjá easyJet eða 36 prósent og bréf Air France-KLM samsteypunnar fór upp um 27 prósent. Bréf IAG, móðurfélags British Airways hækkuðu um fjórðung og um fimmtung í tilfelli Lufthansa Group.

Af norrænum alþjóðaflugfélögunum þá byrjaði dagurinn vel fyrir hluthafa SAS því bréf félagsins tóku kipp upp á við eftir að fréttir bárust af versnandi stöðu Norwegian, helsta keppinautarins. Dagurinn endaði með 24 prósent hækkun hjá SAS en 13 prósent lækkun hjá Norwegian. Af norrænu flugfélögunum þá hækkaði gengi Finnair mest eða um 27 prósent.

Þrátt fyrir hækkanir dagsins þá er verðmæti flestra flugfélaga langt undir því sem var í ársbyrjun.