Framlengja samning við Icelandair um flug til Boston

Frá Boston. Mynd: Lance Anderson / Unsplash

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur framlengt samning við Icelandair um að tryggja lágmarksflug til Bandaríkjanna út árið. Samningurinn gerir ráð fyrir að flogið verði minnst tvisvar í viku til Boston á tímabilinu samkvæmt frétt á vef ráðuneytisins.

Þar segir að samningur við Icelandair um að tryggja millilandaflug til Bandaríkjanna, með flugi til Boston, hafi verið framlengdur í þrígang í ár. Nýr viðauki gildir til og með 31. desember en allar tekjur Icelandair af flugi til Boston munu lækka greiðslur vegna samningsins.

Líkt og Túristi greindi frá í vikunni þá voru fáir farþegar í vélum Icelandair sem flugu til Boston í vor og sumarbyrjun. Aftur á móti voru talsvert fleiri sem nýttu sér ferðirnar frá bandarísku borginni.