Gætu aflétt kyrrsetningu MAX þotanna í næstu viku

Flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum eru á lokametrunum í athugunum sínum á þeim breytingum sem gerðar hafa verið á Boeing MAX þotunum.

Hinar kyrrsettu Boeing þotur Icelandair. MYND: GUNNLAUGUR RÖGNVALDSSON

Nú eru tuttugu mánuðir síðan Boeing MAX þoturnar voru kyrrsettar um heim allan eftir tvö flugslys þar sem 346 manns misstu lífið. Nú sér hins vegar fyrir endann á flugbanninu vestanhafs því samkvæmt frétt Reuters horfa flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum til þess að aflétta kyrrsetningunni um miðjan næstu viku.

Líkt og áður hefur komið fram er útlit fyrir að evrópsk flugmálayfirvöld kvitti einnig upp á þær breytingar sem gerðar hafa verið á Boeing MAX þotunum á næstu mánuðum.

Flugáætlun Icelandair gerir ráð fyrir að MAX þotur muni flytja farþega félagsins frá og með 1. mars og á nokkrum flugleiðum er eingöngu reiknað með að nýta þotur af þessari gerð.

Icelandair var búið að taka í notkun sex MAX þotur þegar kyrrsetningin var sett á í mars í fyrra. Félagið á pantaðar sex þess háttar þotur í viðbót og þrjár þeirra hafa staðið tilbúnar við verksmiðjur Boeing frá því í fyrra.