Gengi SAS niður um þriðjung

Í dag gátu þeir sem tóku þátt í hlutafjárútboði SAS í síðasta mánuði byrjað að eiga viðskipti með bréfin. Strax í morgunsárið tóku bréfin mikla dýfu.

Mynd: SAS

Það voru sænska og danska ríkið sem keyptu stærstan hluta þess nýja hlutafjár sem SAS gaf út í síðasta mánuði. Ríkin tvö eiga því nærri helming í félaginu eins og staðan er í dag.

Til viðbótar bættust svo í hluthafahópinn eigendur óveðsettra skuldabréfa sem sættust á þá afarkosti sem þeim voru boðnir í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu flugfélagsins.

Sá hópur gat frá og með deginum í dag byrjað að losa sig við bréfin og strax í morgun voru viðskiptin mikil. Lækkaði gengi bréfanna um rúmlega þriðjung strax við opnun kauphallarinnar í Stokkhólmi.